Stefnur og straumar í auglýsingum á netinu árið 2018

Stefnur og straumar í auglýsingum á netinu árið 2018

Internetið svokallaða er síbreytilegur frumskógur þar sem auglýsendur keppast um athygli notenda til að selja vörur sínar, kynna sig eða þjónustu sína. Auglýsingar á netinu eru erlendis orðinn stærsti birtingamiðill fyrir fyrirtæki en Facebook, Google, Instagram og aðrir slíkir miðlar eru að taka stærstu sneiðina úr köku auglýsingabransans og er sneiðin að stækka ár frá ári.

En þessir miðlar þurfa að breyta ýmsum breytingum og bjóða upp á nýjungar til að fyrirtæki haldi áfram að eyða markaðsfé sínu á þessum vettvangi. 

Við skoðum hérna nokkrar athyglisverðar upplýsingar um strauma og stefnur árið 2018.

Facebook tekur fastar á "like" eða "deildu" leikjum
Facebook hefur gefið það út að það muni setja hömlur á færslur þar sem fyrirtæki eða einstaklingar reyna að fá notendur Facebook til að setja "like" eða deila færslum gegn verðlaunum. Margir kvarta yfir slíku "spammi" og Facebook segir þetta gert til að koma til móts við notendur. 
Facebook er auðvitað að stýra tekjum til sín með þessu en þá þurfa fyrirtæki að kaupa "boost" eða auglýsingar til að fá færsluna sína í dreifingu - ef ekki er borgað fyrir það þá birtist færslan/auglýsingin ekki hjá notendum.

Myndbönd eru málið
Fyrirtæki sem vilja vekja athygli þurfa að búa til efni og myndbönd sem lætur fólk stoppa við og hugsa: "Þetta gæti verið áhugavert." Þetta kallast "content marketing" og felst í því að framleiða myndbönd eða grafík sem grípur augað. 
Textafærslur virka ekki samkvæmt mælingum og því þarf að ganga lengra til að ná til notenda sem í dag eru þegar með aðgang að allskonar flottu efni annarsstaðar.

Myndband er ekki það sama og myndband... sem slíkt
Myndbönd eða grafík sem eru notuð í "content marketing" þurfa að vera FAGLEGA unnin. Það er ekki nóg að rífa upp símann, taka eitthvað upp og birta það. Ætlast svo til að allir elski 6 mínútna innslagið þar sem þú talar um vörur fyrirtækisins og segir lélega brandara. 
Það þarf að gera hlutina faglega, unna af fagfólki og leggja hugsun og metnað í verkið. Það er nóg af fólki á netinu sem sér um lélega stöffið.

Instagram drepur SnapChat
Þessi setning hefur reyndar komið upp áður en Instagram er með gríðarlegt markaðsbatterí á bakvið sig sem kann að bjóða upp á auglýsingar á netinu. Instagram nær til mun breiðari hóps en t.d. Facebook og Snapchat þar sem eldri notendur (40+) nota ekki SnapChat mikið og yngri notendur eru farnir að nota SnapChat til að senda skilaboð á milli en ekki nota það til að deila myndum. 
Instagram mun kannski ekki "drepa" SnapChat en þó má leiða líkum að því að markaðurinn sé að breytast en SnapChat hefur glímt við fjárhagserfiðleika og ekki náð að stækka neitt að ráði undanfarin ár. 

Hey Siri - Hvar er næsta kaffihús?
Það er mikið horft til þeirra tækja sem við notum hvað mest eins og símanna okkar. Í dag geturðu spurt símann þinn spurninga eins og hvar næsta kaffihús sé eða hvenær Star Wars - The Last Jedi (sem er frábær) er sýnd. Í dag finnur síminn þessar upplýsingar samkvæmt staðsetningu þinni eða hvar þú mögulega hefur mest farið á kaffihús. 
Af hverju ekki að selja þessa leit eins og Google AdWords gerir? Þá væri hægt að láta Kaffitár koma fyrst, jafnvel þó að Te og kaffi sé mun nær. Það er ekkert sem bannar þetta en þetta gæti reyndar komið notandanum illa ef Siri vill alltaf senda alla á kaffihús á Reyðarfirði.
En framtíðin mun bjóða upp á kostaðar leitir - útfærslan á samt eftir að koma í ljós.

Facebook Live... getur verið hættulegt!
Það geta allir opnað á beina útsendingu úr símanum sínum með Facebook Live eða Periscope á Twitter. Þetta getur verið öflugt markaðstæki ef þetta er notað rétt, t.d. á viðburðum fyrirtækisins. Vandinn er samt sá að það má, ótrúlegt en satt, ekki allt á netinu. Tónlistarmenn eiga t.d. höfundarétt á tónlist sinni og það þarf þá að semja við þá um að senda það út. 
Gott dæmi um þetta er af manni sem sendi út á Facebook Live heilan UFC viðburð. Hann fékk reikning upp á um 80 þúsund pund fyrir athæfið, sá sagði að vinur hans hafi gert þetta og hann hafi verið of ölvaður til að geta það. Þitt Facebook - þitt vandamál.

Gervigreindin þekkir þig betur en þú sjálfur!
Gervigreind er að verða mun öflugri og er satt að að segja að koma að daglegu lífi okkar á ansi marga vegu - án þess að við séum mikið að hugsa um það. Ef þú sækir um greiðslumat klukkan ellefu um kvöld og færð svar skömmu síðar þá er enginn sem situr í bankanum og er að setja það saman og senda þér. Þetta er gervigreind sem skoðar þig, söguna þína, vanskilasögu og allt annað og "ákveður" hvort þú getir keypt íbúðina á Víðimelnum. 
Það sama er nú þegar að gerast á Facebook, Google og allstaðar. Þú skoðar vef með höggborvélum og allt í einu birtast endalausar auglýsingar um hinar ágætustu höggborvélar sem eru til í næsta nágrenni við þig! Þetta er gervigreind eða "algóriðmi" sem reiknar þetta allt út og sérhannar að þínum "þörfum".
Þess má geta að ný persónuverndarlög taka í gildi í ár og þar hefur verið gripið inn í þessa þróun. Manneskja þarf að vera í ferlinu á einhverju stigi sem þú (sem manneskja) getur talað við um "ákvörðun" gervigreindarinnar. En meira um þessi lög síðar.

Áhrifavaldar verða að merkja auglýsingar greinilega
Áhrifavaldar eru sístækkandi hópur einstaklinga sem kynna "uppáhalds" vörurnar sínar fyrir stórum hópi fylgjenda. T.d. er stúlka sem klæðir sig sjaldnast eftir veðri að kynna "uppáhalds" appelsínsafann sinn í fernu sem stendur einmanna á borðinu á meðan 90% af rammanum er að brjóstgóðu stúlkunni með ljósu lokkana og fallega hvíta brosið. 
Það má deila um hversu mikið erindi appelsínufernan hefur á myndinni en stúlkan fær borgað, í beinhörðum peningum, fyrir að hafa fernuna fyrir augum fylgjenda. Í dag merkja sumir áhrifavaldar myndirnar með #ad en drekkja yfirleitt þessum fyrirvara með tugum annarra #merkja. Í framtíðinni verður notendum skylt að gera slíkar færslur meira áberandi, t.d. með borða yfir myndinni að um auglýsingu sé að ræða. 
Rosalega langar mig í appelsínusafa allt í einu, hmm undarlegt.

Borgað fyrir áhorf
Google og fleiri bjóða upp á að borga einungis fyrir smelli á viðkomandi auglýsingu. Þetta hentar þeim sérstaklega vel sem eiga ekki mikið af auglýsingapeningum og vilja sjá árangurinn í rauntíma. Google AdWords, Facebook Ads og hin fyrirtæki bjóða öll upp á að sjá smelli á auglýsinguna og jafnvel hverjir kaupa vörur eða þjónustu. Þetta er að verða algengara og fyrirtæki nota þessa þjónustu æ meira. Það er erfitt að mæla árangur í sjónvarpi og hvað þá í dagblöðum en borgun fyrir áhorf/notkun sýnir strax hvort auglýsingin er að virka - svo má alltaf breyta auglýsingunni eða efninu ef það er ekki að virka. 

Hérna hefur verið stiklað á nokkrum hlutum varðandi markaðssetningu á netinu og það er aldrei að vita nema við komum með aðra grein síðar. Þetta er í það minnsta spennandi ár hvað auglýsingar varðar!

(Stúlkan á myndinni er að kynna Bikini Beans Espresso kaffið - grínlaust)

Græjan I Profoto hendir sér á flass-markaðinn

Græjan I Profoto hendir sér á flass-markaðinn

Taktu fullkomnar sjálfsmyndir (selfies) með Selfissimo

Taktu fullkomnar sjálfsmyndir (selfies) með Selfissimo