Tækið - Minnkaðu burðinn með Canon M6

Tækið - Minnkaðu burðinn með Canon M6

Flestir atvinnuljósmyndarar og lengra komnir áhugaljósmyndarar burðast yfirleitt um með þungar myndavélar og stórar linsur. Stundum er mikilvægt að vera með þessar græjur til að ná góðum myndum en þó ekki alltaf - sérstaklega í dag þegar smávélar eru að komast ansi nálægt stóru vélunum í gæðum. Þar kemur Canon M6 sterk inn.

Sem ljósmyndari þá hef ég notað Canon EOS 5D Mark III og flestar Canon L-linsur í verkefni. Það þarf ekki að ræða um gæðin sem koma úr 5D vélinni og hvað þá um linsugæðin á L-linsum Canon en stundum vill maður minni vél, sem kemst í jakkann eða litla tösku til að mynda. 

Ég ákvað því að fjárfesta í Canon M6 vélinni til að nota sem varavél (nota millistykki fyrir stóru linsurnar) og nota 18-55 sem almenna linsu og 55-200 sem aðdráttarlinsu. Persónulega þarf ég ekki fleiri linsur þar sem ég nota aðallega L-linsurnar (24-70 2.8L, 16-35 4L og 70-200 2.8L) í verkefni þar sem 5D vélin er aðalvél. M-linsurnar eru notaðar þegar ég vil vera með netta vél og sérstaklega í ferðalögin.

M6 vélin hefur einnig marga kosti sem eldri M-vélar frá Canon höfðu ekki, eins og "viewfinder" sem smellist í "hot-shoe" ofan á vélinni en ég vil alltaf hafa þann kost fyrir hendi að nota viewfinder en ekki skjáinn. Þá er ekkert mál að nota stærri linsur á vélinni með millistykki sem breytir ekki ljósopi linsunnar, þ.e. 2.8 helst sem 2.8. 

Þegar stærri linsurnar eru notaðar þá færðu ekki sama hraða og á stærri vélunum, enda er ekki hægt að búast við því. Hins vegar er M6 ansi fljót að vinna og fókuserar ótrúlega hratt miðað við stærð - sem satt að segja kom mér á óvart. Þegar M-linsurnar eru á þá er vélin mjög snörp í snúningum. Það er ágætt að benda á að þegar stærri linsur eru notaðar þá notar vélin meira afl og því borgar sig alltaf að eiga auka rafhlöður!

Gæðin eru mjög góð úr vélinni en áferðin á myndunum er ekki ósvipuð og úr 5D mark 3 eða mark 4. Vélin er með CMOS myndflögu sem margfaldar myndsviðið um 1.6. Þetta er sama og t.d. 7D vélin gerir og satt að segja bætir við auknum möguleikum ef t.d. þú ert með 5D með "full frame" sem aðalvél. 5D Mark III er með betri myndgæði eins og gefur að skilja enda með stærri myndflögu en þú þarft að rýna ansi vel og lengi í myndirnar til að sjá einhvern mun - flestir munu ekki taka eftir neinum gæðamun. 

Fókuskerfið er mjög öflugt en ég stillti á miðjufókus í mínum verkefnum - eins og ég jafnan geri með aðrar vélar. Þá er vélin snarpari að fókusera og ég stilli svo af myndina áður en ég smelli af. Vélin dritar allt að 5 myndum á sekúndu sem er satt að segja meira en 5D Mark III ræður við. 

Canon býður upp á forrit til að tengja vélina við snjallsíma eða tölvu þráðlaust sem virkar mjög vel og gat ég t.d. skilað myndum á milli atriða á tónleikum án þess að taka minniskortið út og setja í tölvu. Mjög mikill kostur fyrir þá sem þurfa að skila hratt af sér efni, fréttaljósmyndarar og ljósmyndarar sem birta efni á samfélagsmiðlum.

Ef þú ert að spá í að fá þér litla vél og vilt fá kosti stóru vélanna þá er Canon M6 góður kostur. Sérstaklega ef þú ert með stærri linsur og vilt nota þær áfram. Ég mæli samt með að eiga M linsur líka til að vera ekki að burðast alltaf með stóra pakkann - eins og í gönguferðinni á Esjuna eða á Kilimanjaro! Litlu linsurnar eru ótrúlega skarpar og meðfærilegar. 

Skelltu þér í Origo (eða hvaða stað sem er sem selur Canon vörur) og fáðu að handleika vélina - ég er nokkuð viss um að þú fallir fyrir henni, eins og ég gerði.

Góður grunnpakki:
Canon M6
EF-M 18-55mm f/3.5-5.6 IS STM
EF-M 55–200mm f/4.5–6.3 IS STM
Auka rafhlöður

Góð viðbót fyrir lengra komna:
Millistykki fyrir EOS linsur
Electronic Viewfinder EVF-DC2
EF-M 11-22mm f/4-5.6 IS STM (víðlinsa)

Að lokum. Það má örugglega halda að ég sé talsmaður Canon en svo er ekki. Ég hef greitt fyrir linsur og tæki enda ekki svo frægur að fá vélar og linsur ókeypis - ég er hins vegar langtíma Canon notandi.

Ég er mikill aðdáandi véla sem eru notaðar til að fanga mannlífið á lítt áberandi hátt eins og með Fujifilm eða Leicu. Sjálfur nota ég Fujifilm X100F mikið í ákveðin verkefni og mun ég fjalla um hana nánar síðar - á óskalistanum er líka Leica Q sem ég mun fá mér ef ég vinn í lottóinu (eða Leica sendir mér eintak, blikk blikk). Canon M6 er í þessum flokki hvað stærð og fyrirferð varðar.

Hérna er nokkrar myndir úr Canon M6 og myndir af vélinni má finna neðst. 

LB - Iceland Airwaves 2017 - 4 november 2017 - 0517.jpg
LB - Iceland Airwaves 2017 - 3 november 2017 - 0331.jpg
LB - Iceland Airwaves Stúdentakjallarinn 2 november 2017 - 0417.jpg
1000-Canon-EOS-M6-16_1487078418.jpg
highres-Canon-EOS-M6-with-adapter-and-85mm-f1-2-L-II-USM-P4120001_1492004168.jpg
AirPods 2 væntanlegir á árinu

AirPods 2 væntanlegir á árinu

Spotify sagt vera að hanna snjall-hátalara

Spotify sagt vera að hanna snjall-hátalara