Geymdu myndirnar (og gögnin) á góðum stað

Geymdu myndirnar (og gögnin) á góðum stað

Það er fátt meira pirrandi og jafnvel sárt en þegar tölvan eða harði diskurinn hrynur eða er stolið, síminn týnist eða geisladiskarnir sem myndirnar frá því að börnin voru lítil voru á - virka ekki lengur. Þetta eru allt hlutir sem fólk er að lenda dags daglega og fattar allt í einu að þú tryggir ekki eftir á - allar þessar verðmætu minningar eru horfnar.

Við mælum því með að þú takir afrit af myndunum þínum sem og öðrum mikilvægum gögnum en með nútíma tækni þá er mjög einfalt að geyma alla þessa hluti á vísum stað. 

Hérna eru nokkrir valkostir en þessi listi er alls ekki tæmandi en við mælum með að þú byrjir að taka öryggisafrit af því sem er mikilvægt - það er ekki eftir neinu að bíða.

Dropbox
Það nota ansi margir Dropbox en þá ertu með afrit á tölvunni eða snjalltækinu sem svo uppfærir gögnin á Dropbox og þannig ertu með nýja útgáfu af gögnunum þínum á öruggum stað. 
Grunnáskrift er frí en þá færðu 5 GB til að nota, eitt terabæt kostar um 10 dollara á mánuði en þá ertu væntanlega kominn með nóg pláss í dágóðan tíma.
Dropbox er líka með "Camera upload" valkost sem sendir myndirnar úr símanum eða snjalltækinu beint á Dropbox þegar þú tengist við þráðlaust net. Og þá eru myndirnar á öruggum stað.

iCloud
Apple býður upp á iCloud sem kostar einhverja dollara á mánuði, það fer eftir hversu mikið pláss þú þarft. iCloud sendir myndirnar beint í skýið og geymir þær þar. Þú getur einnig tengt saman tæki og þá birtast myndirnar á öllum tækjunum sem eru á sama Apple aðgangi (Apple ID). 
Passaðu samt að tækin séu nógu stór ef þú tengir þau saman en þú getur fyllt tækin af myndum án þess að gera þér grein fyrir því. 
Þeir sem nota Mac tölvur ættu að skoða iCloud en þú getur þá líka geymt ákveðin gögn í skýinu sem "syncast" við tölvuna og þá kemstu hvar og hvenær sem er í öll vinnugögnin. Ef tölvan deyr eða henni er stolið þá geturðu á stuttum tíma sett upp aðra vél eða unnið með gögnin á öðrum tækjum. Súper næs!

Google Drive
Google er með samskonar þjónustu og iCloud nema að tengt er við gagnaþjóna Google sem eru ansi öflugir. Hægt er að kaupa ýmsar áskriftir hjá Google en 15 GB er frí en svo er hægt að kaupa meira gagnapláss. Verðin er svipuð hjá Dropbox, Google drive og iCloud. 

OneDrive
Microsoft er með þjónustuna OneDrive þar sem hægt er að nálgast gögn - hvar og hvenær sem er. OneDrive fylgir með Office 365 áskriftum en þú færð 1 TB með því að kaupa Office 365 áskrift. Einnig er hægt að nota einungis OneDrive aðgang en 5 GB eru frí en 50 GB kosta um 3 dollara á mánuði. 

Gagnaver
Ef þú ert með mikið af gögnum eins og stór myndasöfn þá geturðu keypt aðgang að gagnaveri. Fyrirtæki eins og Backblaze geyma þá gögnin fyrir þig og þú getur hvenær sem er nálgast þau enda er þjónustan opin alltaf. 
Ljósmyndarar geta geymt mörg terabæt í gagnveri og er kostnaðurinn lítill - miðað við að tapa gögnunum. Ótakmarkað pláss kostar um 5-10 dollara á mánuði en það getur tekið sinn tíma að færa gögnin á diska gagnaversins. Flestar svona þjónustur bjóða upp á vinalegt notendaviðmót þar sem t.d. er hægt að stilla að tölvan noti einungis hluta af nettengingunni og sendi gögnin einungis á ákveðnum tímum dags.
Varið ykkur samt með gagnamagn en best er að senda á hraðvirkri tengingu og helst með ótakmarkað gagnamagn.

Harðir diskar
Verð á hörðum diskum hefur lækkað mikið en t.d. kostar 8 terabæta flakkari um 45.000 í Tölvulistanum. Það er því hægt að kaupa stóran flakkara 4-8 TB nokkuð ódýrt. 
Við mælum með að kaupa alltaf tvo diska og spegla þá, þ.e. að sama efni sé á báðum diskum. Það gerist reglulega að harðir diskar hrynja og því er best að eiga tvöfalt sett - og geymið diskana á sitt hvorum staðnum. Ef það er bruni eða innbrot, þá missirðu báða diskana, ekki geyma öll eggin í sömu körfunni.
Það eru ókeypis forrit á netinu sem spegla diska og því ekkert til fyrirstöðu að eiga tvö eintök.

Það er einnig hægt að fá sérstakar lausnir sem kallast RAID þar sem nokkrir diskar eru saman og einn diskurinn er tæknilega séð að taka afrit. Ef einhver diskur bilar þá á að vera nóg að setja annan samskonar í og þá dreifast gögnin sem töpuðust aftur á réttan stað. Þetta er heldur flóknara dæmi og mælum við með að fólk kynni sér þetta sérstaklega á netinu eða hjá þjónustuaðilum.

Geisladiskar
Þetta er hægt en líklega er tími geisladiska að enda eins og tími risaeðla á sínum tíma - þeir verða útdauðir. Tölvur í dag og auðvitað snjalltæki eru ekki með geisladrif og því hægara sagt en gert að komast í þessi tæki nema að kaupa utanáliggjandi skrifara. Vandinn er líka að geisladiskur tekur aðeins um 700 MB nema það sé t.d. "blue ray" diskur sem tekur allt að 50 GB en diskarnir eru ansi dýrir. 
Þá er einnig ekki hægt að treysta geisladiskum að eilífu en þeir "tapa" gögnum með árunum og mögulega hætta alfarið að virka og þá eru gögnin týnd og tröllum gefin.

 

Það má líka alltaf prenta út myndir

Það má líka alltaf prenta út myndir

WhatsApp gefur þér núna klukkustund til að bjarga klúðrinu

WhatsApp gefur þér núna klukkustund til að bjarga klúðrinu

Appið - Halide er myndavéla-appið sem iPhone þarf!

Appið - Halide er myndavéla-appið sem iPhone þarf!