Hvernig á að taka myndir af krökkunum í íþróttum?

Hvernig á að taka myndir af krökkunum í íþróttum?

Það er meira en að segja það að taka góðar íþróttamyndir. Margir glíma við það vandamál, sérstaklega með börnin í allskonar íþróttum og eftir að mynda bak og fyrir þá koma myndirnar hreyfðar og úr fókus - og hvað er þá til ráða? 

Hérna eru nokkur ráð um hvernig á að bera sig af við að mynda krakkana í íþróttum. Fyrst ber samt að taka fram að það er hægara sagt en gert að mynda inni í íþróttahúsum. Jafnvel reyndir ljósmyndarar eiga í erfiðleikum með ná góðum myndum þar en það er aðallega vegna þess að ljósið í húsunum er oft skelfilegt og þrátt fyrir að við sjáum ágætlega þar inni þá þarf myndavélin að vera ansi góð til að geta fókuserað og náð nægilegu ljósmagni við slíkar aðstæður. 

Við ætlum því að leggja upp með að það sé verið að mynda úti enda sumarið á næsta leyti. Við bjartar og góðar aðstæður. Svo má fara með sömu ráðleggingar og prófa annarsstaðar - eins og inni.

Góð íþróttaljósmynd sýnir stemningu ekki síður en íþróttina. Ekki vera hræddur við að prófa nýja vinkla eða nýja tækni. Og mundu að besta íþróttamynd heims hefur enn ekki verið tekin!

1. Myndavél eða snjallsími
Þrátt fyrir að snjallsímar séu að verða betri og betri þá eru þeir ekki myndavélar. Það má alltaf grísa á að ná góðu skoti en linsurnar á símum eru yfirleitt víðar og um leið og þú ferð að skera rammann til þá tapast öll gæði, nema þá ef myndin er bara á Instagram - þá sleppur það kannski. 
Ef þú vilt fá góða mynd af barninu í íþróttum þá skaltu fjárfesta í myndavél, helst með skiptanlegri linsu eins og Canon M6 eða þá stærri vél. Þær kosta meira en vélar með fastri linsu en ef þú færð bakteríuna þá viltu seinna meir fjárfesta í betri linsum og þá er gott að hafa eytt aðeins meira í betri myndavél. Minni vélar með fastri linsu gera heilmikið, hinsvegar er er vandinn oft þar að ljósopið er frekar lítið þegar linsan er á mesta aðdrætti - þá lendirðu í veseni með að ná myndum í fókus þar sem myndavélin er ekki með nægilegt birtumagn til að fókusera og myndirnar eiga til að vera dökkar. 
Góð myndavél er lykilatriði.

2. Fjárfestu í góðu gleri (linsu)
Ég ætla ekki að tala um tæknileg atriði eins og ljósop og slíkt en góð linsa er yfirleitt með betra gleri sem þýðir skarpari myndir. Í dag er hægt að fá linsur á öllum verðum - reynslan mín þar er sú að þú borgar alltaf fyrir gæðin. Ef linsa er mjög ódýr þá er ástæða fyrir því. 
Þegar þú velur linsu þá skaltu reyna að fá hana með stóru ljósopi. Það er t.d. ljósop 4 á linsu nokkuð gott, atvinnumenn eru með linsur sem fara í allt að 1.2 en þær linsur eru fyrirferðamiklar. Það er talað um að ljósop 1.0 sé það sem augun okkar geta numið - það er samt erfitt að útskýra það. Það er best að kynna sér vel linsur með því að lesa um þær á netinu en það eru örugglega fjölmargir búnir að prófa allar linsur sem fást í dag við mismunandi aðstæður. 
Ég myndi t.d. mæla með 55-200 linsunni á M-vélar frá Canon. M-linsurnar eru almennt litlar en virka vel við góðar aðstæður (nokkrar myndir má sjá hér að neðan úr M6 og 55-200). 
Lykilorð: Gott gler, stórt ljósop, hraði.

3. Gleymdu A (Auto) stillingunni
Það eru ótrúlega margir sem virðast halda að myndavélin sé föst á P eða A stillingum. Þetta eru sjálfvirkar stillingar sem láta myndavélina hugsa fyrir þig. Nú þarftu að hoppa úr þægindarammanum og stilla vélina sjálfur. Á myndavélinni eru væntanlega AV og TV stillingar eða jafnvel M stilling. 

AV - Aperture Priority Mode
Þú velur ljósop og myndavélin velur lokarahraða. Miðað við ISO (ljósnæmistillingu vélarinnar).

TV - Shutter Priority Mode
Þú velur hraðann og myndavélin velur ljósopið. Miðað við ISO (ljósnæmistillingu vélarinnar).

M - Manual Mode
Þú stillir ljósop, hraða og ljósnæmi. 

Þú þarft að nota M til að hafa fulla stjórn á því sem þú ert að mynda. Mundu líka að breyta ljósnæmi eða ISO stillingunni - mögulega fara frekar hátt með hana til að geta notað stærsta ljósop linsunnar og meiri hraða til að frysta myndina. 

4. Á hvað áttu að stilla?
Byrjum hér á hraðanum. Til að frysta mynd, t.d. stelpunni þinni hlaupandi að rekja boltann eða taka skot á markið þá þarftu að hafa hraðann á 1/250 sem væri lægsti hraðinn, best er að stilla vélina á 1/500 eða hærra en þá eru mestar líkur á að ná mynd sem er ekki á fleygiferð (sem getur reyndar verið flott líka - meira um það síðar). Reyndu að hafa ljósopið eins mikið opið og hægt er, t.d. 4 eða lægra, með þessu þá nærðu líka að einangra myndefnið frá bakgrunninum. Það er í lagi að nota önnur ljósop og það er í góðu lagi að stilla ljósnæmi vélarinnar ansi hátt (allavega á nýrri vélum). Þú verður ekki svo var við loðnar myndir fyrr en þú ert kominn upp fyrir 6400 ISO, samt er best að hafa þessa ISO 100-1600 sé þess kostur. 

5. Hvað með fókusinn?
Flestar vélar í dag eru með fín fókuskerfi. Það er samt hægt að velja mismunandi valkosti með fókusinn, t.d. er Servo fókus notaður mikið í að mynda íþróttir en þetta er elti-fókus sem reynir að elta myndefnið. One shot-fókus festir fókusinn og þú nærð kannski einn mynd en svo hleypur strákurinn eitthvað með boltann og þá er fókusinn ennþá fastur á hinum staðnum. 
Prófaðu Servo-fókusstillingu en mundi að þetta heitir ekki það sama á öllum vélum. Skoðaðu bara bækling vélarinnar eða notaðu netið til að finna hvað þetta heitir á þinni vél. 
Þú þarft svo að muna að breyta hversu margar myndir vélin tekur í einu. Flestar vélar eru með "HIGH SPEED DRIVE" eða eitthvað álíka markaðslega orðað en með því að nota þetta tekur myndavélin fleiri ramma á sekúndu og þú nærð líklega fleiri góðum myndum. Það er líka gott að hafa í huga að myndefni sem er að hreyfa sig í átt að þér er auðveldara að ná í fókus en myndefni sem er að færa sig til hliðar í rammanum, þá á myndavélin oft erfitt með að elta það og halda í fókus.

6. Hugsa, bíða, SKJÓTA
Myndavélar eru sumar hægar og því þarf stundum að nota "Decisive Moment" hugsun. Þá þarftu að hugsa um hvenær strákurinn þinn er að hlaupa í rammann og hvar hann verður næstu sekúndur og mynda þá. Áður fyrr voru ljósmyndarar bara með myndavél sem tók eina mynd og svo þurfti að skipta um filmu, þeir höfðu ekki lúxusinn á að geta tekið 10-20 myndir á sekúndu, en tóku flottar myndir samt. Hugsa, bíða, skjóta.

En þetta snýst allt, eins og íþróttir, um æfingu! Þú ert ekki að fara að vinna til verðlauna með myndum af fyrsta leik stelpunnar en með æfingunni kemur þetta. Og muna að gefast ekki upp. Atvinnuljósmyndarar taka oft hundruð mynda áður en góða myndin næst.

  • Hérna eru nokkur önnur atriði sem geta hjálpað.
  • Notaðu einfót - það gerir þig stöðugri og þú getur myndað við verri aðstæður eins og þegar dimmt er orðið
  • Fáðu lánaða alvöru myndavél og linsur - Einhver í ættinni er örugglega með myndavéladellu og er til í að leyfa þér að prófa
  • Fáðu ráð og hjálp! - Ekki gefast upp. Þetta tekur tíma og spurðu aðra og lestu þig til um hvernig best er að gera hlutina.
  • Veldu góðan stað - Ekki vera með sólina á bakvið myndaefnið, sólin á að lýsa myndefnið en ekki búa til skugga úr því. 

Myndirnar hér að neðan voru teknar með Canon M6 og 55-200 M-linsu.

Snapchat byrjar að nota 3D fítusa á iPhone X

Snapchat byrjar að nota 3D fítusa á iPhone X

Leica 0 seldist á um 300 milljónir

Leica 0 seldist á um 300 milljónir