hVAR er fjörið í því?

hVAR er fjörið í því?

Það hefur mikið verið rætt og ritað um VAR tæknina (Video Assistant Referees) sem er byrjað að nota á knattspyrnuvöllum en þrátt fyrir góða og gilda hugmyndafræði um að útrýma mistökum dómara úr leikjum þá er ekki hægt að segja að VAR hafi beinlínis verið til hagsbóta fyrir fótboltann - stundum jafnvel þveröfugt.

VAR tæknin er sjónvarpstækni þar sem dómari leiksins getur skoðað vafaatriði á sjónvarpskjá og þá breytt ákvörðun sinni eða tekið ákvörðun eins og að dæma víti, rautt spjald eða annað. Þetta er engin nýlunda en t.d. er þetta gert í ameríska NFL fótboltanum þar sem t.d. þjálfarar geta krafist þess að dómari skoði atvik og endur-dæmt þá eftir atvikum eða staðfest fyrri dóma. En í NFL-boltanum gilda allt önnur lögmál en í knattspyrnu. Hver leikur getur hæglega orðið 3-4 klukkutímar og tíminn er stoppaður nær stanslaust til að að hleypa auglýsingum að í sjónvarpi - eitthvað sem ekki er ætlast til að gerist í knattspyrnu, þ.e. að tefja leikinn.

Hins vegar hafa leikið verið stoppaðir ansi lengi til að nota VAR tæknina, 5-6 mínútna uppbótartími og á dögunum fengu margir nóg þegar dómari leiks í Þýskalandi var búinn að flauta hálfleikinn á en kallaði leikmenn óvænt aftur út á völlinn til að taka vítaspyrnu eftir að hann sá eitthvað á skjánum - hálfgerður farsi.

VAR-Ismail-Elfath.jpg

Það er annað sem vinnur ekki með VAR tækninni en áhorfendur á vellinum vita ekkert á hvað er verið að dæma þegar dómarinn hefur skoðað atvik á skjánum sem einungis hann og eftir atvikum sjónvarpsáhorfendur sjá. Þetta getur hleypt af stað reiði og jafnvel ólátum á völlunum enda er samkvæmt reglum bannað að sýna vafaatriði á risaskjám á knattspyrnuvöllum - hvað þá ef dómarinn dæmir eitthvað sem enginn hefur hugmynd um hvað sé. Það gæti endað með ósköpum. 

Það hefur því verið talað um að VAR tæknin muni breytast fljótlega á þann hátt að dómari leiksins fái skilaboð frá aðstoðardómara og hann meti sjálfur - án þess að skoða - að dæma eða ekki. Þetta myndi stoppa tafir á leiknum og að dómarinn sé að leita að einhverju á skjá á vellinum án þess að neinn annar sjái. Þessi VAR 2.0 tækni hefði þá naumari tímaramma og ekki væri hægt að dæma víti löngu eftir að brotið átti sér stað. 

VAR tæknin verður á HM í Rússlandi en stór knattspyrnusambönd, eins og England, hafa neitað að nota tæknina á sínum mótum. Þar að auki er hún dýr og ekki leggjandi á alla velli að vera með tugi myndavéla og skjái fyrir dómara - allavega yrði það þungur baggi fyrir FH-inga eða Víkinga, myndi maður halda. Auðvitað viljum við ekki að rangir dómar hafi úrslitaáhrif en við viljum ekki heldur að leikir fari í endalausar tafir og vitleysisgang.

Svo eru það hin rökin að það sé verið að taka kaffistofu-umræðuefnin úr fótboltanum sem gera hann svo skemmtilegan. Það sé ekki lengur hægt að tala um öll vafaatriðin og rífast hressilega við vinina sem styðja hitt liðið - sem er eftir allt saman hluti af leiknum. Er ekki skemmtilegra að láta Pepsi-mörkin ræða um vafaatriðin en að allt sé 100% í leiknum?

Ég segi bara hVAR er fjörið í því?

Vodafone lækkar verð og stækkar pakka

Vodafone lækkar verð og stækkar pakka

Newton póstforritið segir ÚT með útboxið

Newton póstforritið segir ÚT með útboxið