Umfjöllun I Momentum True Wireless eru hverrar krónu virði

Umfjöllun I Momentum True Wireless eru hverrar krónu virði

Það vantar svo sem ekki framboð á þráðlausum heyrnartólum í dag. Það eru samt ein sem þú þarft að kynna þér ef þú ert að leita að fullkominni blöndu af þægindum, stærð og síðast en ekki síst frábærum hljómburði. Það eru Momentum True Wireless frá Sennheiser.

Momentum TW frá Sennheiser komu á markað seint á seinasta ári en þau rötuðu í flestar verslanir stuttu fyrir jól. Sennheiser er þekkt fyrir gæði en þessi heyrnartól eru að keppa við Apple Airpods, Sony, Bose og önnur sambærileg heyrnartól hvað gæði varðar.

Þessi heyrnartól eru þráðlaus og tengjast með Bluetooth tengingu, þau styðja Bluetooth 5.0 staðalinn sem hjálpar þeim að halda sambandi stöðugt þannig að síminn eða snjalltækið missir ekki tengingu sem getur verið ansi pirrandi. Uppsetningin er mjög auðveld og fyrsta hrósið sem Momentum TW fá eru hversu snögg þau eru að tengjast við tæki aftur - fljótari en Airpods ef eitthvað er. Sem er stór kostur. Þau koma í smekklegu boxi sem er einnig auka-hleðsla en það ætti að vera hægt að kreista út úr þeim um 4 tímum í notkun og svo geturðu hlaðið þau í boxinu. Þá er komin á þau USB-C tengi sem er að verða æ algengara en þá er hægt að hlaða þau t.d. með snúrunni sem er notuð í fartölvuna eða símann.

Heyrnartólin fara inn í eyrað og er snúið svo þau haldist á réttum stað. Þau hreyfast ekkert þegar það er búið að setja rétta stærð á tappa á þau og þau eru mjög þægileg í eyra, jafnvel þó þau séu í eyranu í langan tíma - sem er stór kostur.

Screenshot 2019-02-08 at 10.16.08.jpg

Heyrnartólin eru með snertifleti þannig að það er hægt að "slá" mjúklega á þau til að stjórna þeim. Þetta er kostur sem t.d. Bose SoundSport Free mætti koma með en takkinn á þeim er lítill og frekar erfitt er að nota hann. Á Momentum er hægt að nota snertiflötinn til að hækka/lækka, setja á næsta lag, kveikja á Siri eða Google Assistant eða hvað sem er. Ekki ólíkt Airpods. Það er samt enn sem komið er ekki hægt að breyta stillingum fyrir hvert "tap" en það ætti að koma í uppfærslu á appið sem er frítt frá Sennheiser.

Skrifstofan / Heimilið / Almenn notkun

Í daglegri notkun eru þau frábær. Hljómburðurinn er góður eins og maður myndi svo sem gera ráð fyrir frá Sennheiser. Heyrnartólin fara inn í eyrað og loka þannig á umhverfishljóð. Sumir vilja samt heyra í umhverfinu eins og hlauparar en þá er hægt að stilla á "Transparent Hearing" sem hleypir umhverfishljóði í gegn. Þetta er kostur en sumum finnst t.d. Airpods ekki nægilega lokuð enda allt önnur hönnun.

Hljómburðurinn er afar góður en það má líka breyta honum að vild í Sennheiser appinu. Þegar þú tekur símtöl þá er hljóðið afar skýrt og greinilegt en það má t.d. stilla þau þannig að þegar þau eru tekin úr boxinu þá svarar síminn símtali. Einn fítus er líka í í heyrnartólunum sem er að ef þú tekur Momentum úr eyranu þá stoppar tónlistin og svo fer í aftur í gang þegar þú setur það aftur í eyrað.

Í almennri notkun eru þau frábær og það er unaður að hlusta á tónlist í þeim - eiginlega svo góður að þú verður eiginlega að prófa til að skilja það.

IMG_3793.JPG

Ræktin / Útihlaup

Í fyrstu hélt ég að Momentum væru ekki ætluð í mikinn svita og vosbúð í útihlaupum en það var ekki alveg rétt. Momentum TW eru með staðalinn IPX4 sem þýðir að þau eru vatnsvarin en ekki vatnsheld, reyndar eru Apple Airpods ekki heldur vatnsheld ef út í það er farið.

Momentum þola því vel svita og bleytu eins lengi og það er ekki í óhóflegu magni. Þau voru reynd í ræktinni þar sem þau blotnuðu nokkuð mikið og sama var gert í útiskokki. Þau stóðust prófraunina vel og aldrei kom hökt á tónlistina - það má líka hrósa þeim fyrir að tengingin við símann helst mjög vel en síminn var í vasa á buxunum. "Transparent Hearing" valmöguleikinn er líka kostur fyrir útihlaupara sem vilja vita hvað er að gerast í umhverfinu - t.d. heyra bílahljóð eða slíkt.

Það er því hægt að mæla með Momentum í ræktina með þessum fyrirvörum að þau eru ekki alveg vatnsheld.

"Transparent Hearing" valmöguleikinn er líka kostur fyrir útihlaupara sem vilja vita hvað er að gerast í umhverfinu - t.d. heyra bílahljóð eða slíkt.

Í stuttu máli

Við ætlum ekkert að tala undir rós með að við erum að elska Momentum TW. Það vita flestir að Sennheiser er þekkt fyrir að framleiða vörur sem eru með góðan hljóm en stundum hefur farið minna fyrir Sennheiser en öðrum merkjum, líklega útaf öflugri markaðssetningu annarra merkja.

Momentum TW eru frábær alhliða heyrnartól sem kosta aðeins meira en gengur og gerist hjá samkeppnisaðilunum. Það er samt peningum sem er vel varið þegar þú prófar þau og kemst um raun um gæðin sem Sennheiser er að bjóða upp á.

Það eina sem hægt er að setja út á er að það eru ekki nægilega margir valkostir í Smart Connect appinu frá Sennheiser, eins og að stilla hvaða takki gerir hvað og að geta vistað mismunandi útgáfur af tónajafnara (rokk, klassík, rapp..) En það er nánast öruggt að það kemur í komandi uppfærslum frá Sennheiser á appinu. Þá ætti Sennheiser að bjóða upp á að hafa þau tengd við fleiri tæki en eitt í einu eins og mörg heyrnartól bjóða uppá í dag - margir hafa bent á þetta og Sennheiser hefur svarað að það sé í skoðun.

Þú þarft samt eiginlega að prófa Momentum True Wireless til að upplifa þau. Helst vera með uppáhalds heyrnartólin þín til samanburðar og heyra svo heyrnartólum sem eru hönnuð fyrir þægindi en umfram allt frábæran hljómburð - þú munt örugglega falla fyrir þeim.

Sennheiser Momentum TW eru fáanleg í Pfaff á Grensásvegi.

Canon RP væntanleg?

Canon RP væntanleg?

iOS 12.1.4 lagar Facetime vandann

iOS 12.1.4 lagar Facetime vandann